Þann 19. febrúar sl. var aðalfundur Flugsafns Íslands haldinn. Í máli Harðar Geirssonar formanns kom fram að rekstur Flugsafnsins er í góðu jafnvægi og ástæða er til að horfa björtum augum til framtíðar. Aldrei hafa jafn margir gestir sótt safnið heim eins og á síðasta ári eða um 8400 manns og tekjur af aðgangseyri hafa aukist að sama skapi á milli ára.
Safnið hefur notið góðra styrkja á árinu, m.a. af fjárlögum Alþingis, úr Safnasjóði, frá Norðurorku og Akureyrarbæ og flugfélögunum Icelandair og Norlandair. Formaður þakkaði öllum þeim sem stutt hafa safnið fjárhagslega sem og öllum þeim hollvinum og sjálfboðaliðum sem hafa lagt safninu lið á fjölbreyttan hátt. Án þeirra væri ekkert Flugsafn til.
Í þessu samhengi er vert að nefna að árið 2020 hlaut Flugsafnið styrk úr Safnasjóði til þess að kynna safnið á fjölbreyttan hátt. Ávinningur þess stuðnings kemur vel í ljós þegar litið er yfir gestatölur áranna 2020 og 2021 en gestum fjölgaði mikið á milli áranna 2019 og 2020, og aftur á milli áranna 2020 og 2021. Hér með er sérstökum þökkum komið á framfæri til Safnaráðs og menningarmálaráðherra fyrir dýrmætan stuðning.
Flugdagur og sérsýning ársins 2022
Ýmislegt spennandi er á döfinni hjá Flugsafninu á árinu 2022. Sérsýning ársins verður helguð flugmódelsmíði og munu flugmódelmenn bæði sunnan og norðan heiða koma að sýningunni. Ætlunin er að opna sýninguna á Flugdegi Flugsafnsins sem haldinn verður 18. júní 2022. Við hvetjum alla áhugasama að taka daginn frá.
Þá verður áfram unnið markvisst að varðveislumálum safnsins og stefnt er að því að setja upp sýningu um björgunar- og sjúkraflug á árinu auk þess sem sýningin um flug á hernámsárunum verður lagfærð.
Bjart framundan
Nú þegar öllum samkomutakmörkunum hefur verið aflétt standa vonir til þess að gestum haldi áfram að fjölga, bæði innlendum sem erlendum, og hægt verði að nýta safnið til ýmiss konar viðburða sem falla að starfsemi safnsins. Flugsafnið verður opið á laugardögum kl. 13-16 til aprílloka, að frátöldum páskum en opnunartími um páskana verður auglýstur sérstaklega. Sumaropnun tekur gildi í maí og verður opið kl. 11-17 alla daga í sumar.