Safnið

Upphaf Flugsafnsins

 

Flugsafnið var stofnað á Akureyri þann 1. maí 1999. Kveikjan að stofnun safnsins var skortur á skýlisrými fyrir einkaflugvélar á Akureyrarflugvelli. Skýli sem einkaflugmenn höfðu leigt fram til þessa var ekki lengur til afnota. Meðal flugvélanna voru dýrgripir úr flugsögunni sem ekki þótti fýsilegt að geyma undir beru lofti. Í næsta skýli við það sem einkaflugmenninnirnir höfðu haft til umráða voru geymdar gamlar svifflugur og önnur flugtæki sem lágu undir skemmdum vegna plássleysis. Var því ákveðið að stofna sjálfseignarstofnunina Flugsafnið á Akureyri, sem hefði það hlutverk að safna, varðveita og sýna muni og myndir sem tengdust flugi á Íslandi, sögu þess og þróun.

Stofnaðilar voru Air Atlanta, Flugfélag Íslands, Flugleiðir, Flugmódelfélag Akureyrar, Íslandsflug, Íslenska flugsögufélagið, Svifflugfélag Akureyrar og Vélflugfélag Akureyrar. Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra sat stofnfundinn og áritaði stofnskjalið. 

Strax eftir stofnun safnsins var gengið til samninga um leigu á flugskýli á Akureyrarflugvelli og það síðan keypt. Hafist var handa við að innrétta flugskýlið og koma fyrir aðstöðu á efri hæðinni fyrir sérsýningar. Á neðri hæðinni voru flugvélar og svifflugur en úr loftinu héngu minni flugvélar og flugmódel af ýmsum stærðum og gerðum. Í einu horninu var svo innréttað smíðaverkstæði fyrir safnið.

Flugsafnið á Akureyri var formlega opnað 24. júní árið 2000. Í tilefni opnunarinnar var haldin mikil flughátíð, Flughelgi Flugsafnsins. Hátíðin hefur síðan verið haldin ár hvert í júnímánuði. 

 

Nýtt og stærra húsnæði

 

Húsnæði Flugsafnsins varð fljótlega allt of lítið. Sýningarmunum fjölgaði stöðugt og ekki var rými nema fyrir fimm til sex flugvélar í skýlinu. Nauðsynlegt var að byggja við skýlið eða byggja nýtt og stærra hús. Árið 2003 var byrjað að vinna að hugmyndum að útfærslum og safna fé til byggingar á nýju húsnæði.

Á aðalfundi safnsins sem haldinn var 26. febrúar 2005 var nafni safnsins breytt í Flugsafn Íslands, sem endurspeglaði betur hlutverk og starfsemi safnsins.

Á haustmánuðum 2006 hófust byggingaframkvæmdir við framtíðarhúsnæði Flugsafns Íslands. Sigrún Björk Jakobsdóttir þáverandi forseti bæjarstjórnar Akureyrar tók fyrstu skóflustunguna 14. september það ár og opnaði safnið í nýju húsnæði sumarið 2007. Húsið er 2200 fermetrar að grunnfleti en til samanburðar var gamla húsnæðið 450 fermetrar.

Fyrsti viðburðurinn sem fram fór í nýju safnhúsi var 70 ára afmælishátíð Icelandair sem haldin var 3. júní 2007 en þann dag voru sjötíu ár liðin frá stofnun Flugfélags Akureyrar.

Flugsafnið

Á Flugsafninu er 100 ára sögu flugs á Íslandi miðlað til gesta á lifandi hátt. Sýningar safnsins leiða gesti í gegnum þróun íslensks flugs og flugfélaga frá árinu 1919 og til dagsins í dag með flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum, björgunarþyrlu og flugmódelum auk fjölda annarra áhugaverðra muna og ljósmynda. Sumar flugvélanna eru enn í flughæfu ástandi og er m.a. flogið á Flugdegi safnsins sem haldinn er árlega í júní, og gestum er velkomið að ganga um vél Landhelgisgæslunnar, TF-SÝN. Árlega er sett upp sérsýning um tiltekinn þátt flugsögunnar. Hér má finna yfirlit yfir þær sýningar sem haldnar hafa verið til þessa .

 

Með hugsjón að leiðarljósi

 

Allt frá upphafi hefur Flugsafnið notið mikillar góðvildar góðra bakhjarla og hugsjónamanna sem höfðu og hafa það að meginmarkmiði að standa vörð um íslenska flugsögu. Svanbjörn Sigurðsson var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun safnsins og var safnstjóri þess frá upphafi til ársins 2009. Gestur Einar Jónasson stýrði safninu eftir það um nær tíu ára skeið en núverandi safnstjóri, Steinunn María Sveinsdóttir, tók við stjórnartaumunum af honum þann 1. nóvember 2019.

Örninn - Hollvinafélag Flugsafnsins var stofnað 4. maí 2013. Tilgangur félagsins er „að styðja við starfsemi [safnsins] með því að aðstoða ef þörf er á, stuðla að úrbótum, leita eftir styrkjum og kynna safnið.“ Hollvinir safnsins hafa reynst safninu ómetanlegir og eru ávallt boðnir og búnir að leggja hönd á plóg.

 

Örninn