Guðjón Jónsson flugstjóri er fæddur þann 29. ágúst 1927 að Hesteyri í Sléttuhreppi, Norður-Ísafjarðarsýslu. Hann lauk atvinnuflugmanns- og blindflugsprófi frá Spartan School of Aeronautics í Bandaríkjunum árið 1947. Hann gerðist síðan flugkennari hjá Flugskólanum Pegasusi í Reykjavík og starfaði þar árin 1948 til 1949.
Á árunum 1949 til 1951 var Guðjón einn þeirra Íslendinga sem flugu Boeing SB-17G Flying Fortress hjá Björgunarsveitinni á Keflavíkurflugvelli. SB-17G flugvélarnar voru gamlar sprengjuflugvélar sem hafði verið breytt til leitar- og björgunarstarfa. Þær voru auðþekktar á því að þær voru með björgunarbát festan við neðri hluta skrokksins, þar sem sprengjugeymslan var áður, og var bátnum sleppt þegar komið var á slysstað.
Guðjón lauk flugumsjónarmannsprófi frá Eastern Air Navigation Service árið 1951 og starfaði við flugumsjón hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli á árunum 1951 til 1955. Árið 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél, Consolidated PBY-6A Catalina flugbát, sem fékk einkennisstafina TF-RAN. Guðjón réðist þá til Landhelgisgæslunnar og var flugstjóri á "Rán" meðan hún var í notkun, eða til ársins 1962.
Árið 1962 keypti Landhelgisgæslan fjögurra hreyfla Douglas C-54 Skymaster, TF-SIF og flaug Guðjón þessari vél þar til hún var seld árið 1971. Guðjón fékk tækifæri til að endurnýja þekkingu sína af flugbátum árið 1969 þegar tveir Grumman HU-16C Albatross flugbátar voru fengnir að láni í tilraunaskyni frá bandaríska flotanum. Tilraunin tókst ekki vel og skilaði Landhelgisgæslan flugbátunum aftur til síns heima.
Árið 1972 keypti Landhelgisgæslan Fokker F.27-200 Friendship flugvél frá flugfélaginu All Nippon Airways í Japan. Þessi flugvél fékk nafnið "Sýr" og hafði einkennisstafina TF-SYR. Fimm árum síðar kom önnur flugvél sömu tegundar til Landhelgisgæslunnar, TF-SYN. Þetta var fyrsta flugvélin sem Landhelgisgæslan keypti nýja frá verksmiðju. Guðjón var flugstjóri á Fokker F.27 vélunum í 15 ár, eða þar til hann hætti að fljúga fyrir aldurs sakir þann 14. ágúst 1987. Guðjón Jónsson var yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar frá 1955 til 1984. Guðjón hætti að fljúga þegar hann fór á eftirlaun í ágúst 1987.
|