Safnkennsla

Árið 2020 gaf Menntamálastofnun út námsbókina „Flugvélar“ sem skrifuð er af Jóni Guðmundssyni og myndskreytt af Böðvari Leós. Bókin er ætluð yngsta stigi grunnskóla.Bókin Flugvélar 

Í apríl 2021 hlaut Flugsafnið styrk úr Safnasjóði til að útbúa námsefni sem byggði á bókinni enda hafði sýnt sig í heimsóknum skólahópa á safnið, að nemendur sem hana höfðu lesið voru fljótir að tileinka sér námsefnið og hún vakti með þeim enn frekari áhuga á viðfangsefninu.

Við gerð námsefnisins var lögð áhersla á orðaforða tengdum flugi og framsetningu flugsögunnar á einfaldan hátt. Þá var einnig haft að leiðarljósi að tengja flugið við ýmis námsfög, s.s. íslensku, stærðfræði og eðlisfræði, sem og umhverfis- og loftslagsmál.

Útbúið hefur verið fjölbreytt kennsluefni sem hentar elsta stigi leikskóla og yngsta stigi grunnskóla. Tveir ratleikir hafa verið gerðir sem leiða nemendur um safnið og byggir annar þeirra á starfsheitum í fluginu en hinn á flugsögunni og mismunandi hlutverkum flugvéla og þyrlna. Í ratleikjunum er notast við Breakout Edu kassa, sem nemendur opna með því að leysa ákveðin viðfangsefni.
Ratleikirnir henta nemendum í 3. og 4. bekk.

Við bjóðum skólahópa velkomna til þess að fræðast um flugið með ratleikjum, verkefnavinnu og almennri fræðslu og er mælst til þess að nemendur hafi lesið bókina „Flugvélar“ áður en að heimsókn kemur. Hægt er að bóka heimsóknir með því að senda tölvupóst á netfangið flugsafn@flugsafn.is eða hringja í s. 461 4400.

Jafnframt er hluti kennsluefnisins aðgengilegur hér á heimasíðunni fyrir þá nemendur sem ekki eiga heimangengt á Flugsafnið. Hægt er að skoða verkefnin hér að neðan með því að fletta „heftinu“ og hlaða niður einstökum verkefnum undir stikunni „Verkefni og lausnir“.


Jóhanna Dögg Stefánsdóttir kennari á yngsta stigi í Hrafnagilsskóla vann að gerð námsefnisins ásamt safnstjóra og Magnús G. Lárusson annaðist tæknilegar úrlausnir og er þeim þakkað kærlega fyrir samstarfið. Menningarmálaráðherra og Safnaráði færum við kærar þakkir fyrir stuðninginn.


Við vonum að námsefnið nýtist vel og verði með til að auka áhuga nemenda á flugi. Njótið!