Cargolux - Frakt í fimmtíu ár

Cargolux

Saga Cargolux, stærsta fragtflugfélags Evrópu, er ævintýri líkust. Íslenska flugfélagið Loftleiðir hafði náð frábærum árangri sem lággjaldaflugfélag, sem bauð upp á flug milli Bandaríkjanna og Evrópu með viðdvöl á Íslandi. Um miðjan sjöunda áratuginn tóku Loftleiðir í notkun skrúfuvélar af gerðinni Canadair CL-44, sem upphaflega höfðu verið smíðaðar sem vöruflutningavélar en Loftleiðamenn breyttu í farþegavélar. En þotuöldin beið handan við hornið og Loftleiðir festu kaup á DC-8 þotum, sem leysa áttu Monsana af hólmi. 

Þeim varð að finna nýtt hlutverk. Loftleiðir gengu til samstarfs við sænska skipafélagið Salén um fragtflug sem gera átti út frá Luxemborg, Monsunum var breytt aftur í fragtvélar og félagið Saloft varð til árið 1969. Ekki leið á löngu þar til að þriðja stoðin bættist við, Luxair, og Cargolux var stofnað 4. mars 1970. Félagið fékk flugrekstrarleyfi 10. maí sama ár og degi síðar fór fyrsta flug þess í loftið.

Uppgangur Cargolux varð strax mikill og eftirtektarverður. Fjölmargir Íslendingar réðu sig til flugfélagsins og til varð stór og samheldin Íslendinganýlenda í Lúxemborg. 

Félagið keypti sínar fyrstu þotur, sem voru af gerðinni DC-8-61F, árið 1973 og ári síðar bætti félagið DC-8-63F þotum við flota sinn.

Efnahagskreppa níunda áratugarins reyndist félaginu erfið en það stóð af sér storminn. Í upphafi áratugarins keypti félagið Boeing 747 júmbóþotur, oft kallaðar “bumbur”, og 1986 bættust Boeing 747-200F við flota þess. Með það að markmiði að bæta hag sinn hóf Cargolux pílagrímaflug frá Nígeríu til Saudi-Arabíu og á árunum 1987 til 1990 ráku Cargolux og Luxair flugfélagið LionAir, sem bauð upp á bæði farþegaflug og fragtflug. 

Hagur Cargolux tók að vænkast og árið 1997 voru starfsmenn þess orðnir þúsund talsins. Félagið var fyrst til þess að fljúga nýjum Boeing 747-400F þotum og reyndust þær nýtast Cargolux það vel, að árið 2000 voru þær einu vélarnar sem félagið flaug og voru þær þá orðnar tíu talsins. Cargolux hefur æ síðan haldið tryggð við Boeing og nýjasta viðbót við flotann eru þotur af gerðinni Boeing 747-8F.

Tilkoma internetsins og alþjóðavæðing viðskiptalífs stuðlaði mjög að vexti Cargolux, sem nú er stærsta fragtflugfélag Evrópu, með 85 útibú í yfir 50 löndum. Félagið hefur yfir 30 Boeing 747 þotum að ráða og starfsmenn þess eru á fjórða þúsund.

Cargolux byrjaði með Loftleiðaævintýrinu. Flugleiðir, sem varð til við samruna Loftleiða og Flugfélags Íslands, seldi hlut sinn í félaginu árið 1985 en hann hafði farið minnkandi frá árinu 1982. Það sama gerði sænska skipafélagið Salén árið 1987. Luxair hefur ávallt átt stóran hlut í félaginu og á nú um þriðjungshlut. Stofnendur félagsins lögðu góðan grunn að félaginu eða eins og Birkir Baldvinsson flugvirki Loftleiða og Cargolux um langt skeið segir í ævisögu sinni:

“Uppgangur þessa nýstofnaða fragtfélags sver sig í ætt við velgengni Loftleiða á næstliðnum árum. Íslensk áræðni fer þar saman við norræna nákvæmni og evrópska aðhaldssemi, svo úr verður fyrirtæki sem sækir fram af viti og varfærni.”