Skúli í flugjakkanum, með myndirnar sem hann gaf safninu.
Skúli Brynjólfur Steinþórsson fyrrverandi svifflugmaður og flugstjóri hugsar vel til Flugsafnsins og kemur oft færandi hendi norður á fornar slóðir. Skúli kom í ágúst s.l. með gamlar ljósmyndir sem hann hafði látið prenta og setja á ramma. Þar má sjá gamla félaga úr Svifflugfélagi Akureyrar við Sellandafjall í Mývatnssveit upp úr 1950, en þangað sóttu svifflugmenn á árum áður og komu sér upp aðstöðu. Einnig er mynd af Karli Magnússyni sem var einn af frumkvöðlum svifflugsins fyrir norðan. Síðan er mynd af þýskum flugkennara, Eric Vergens, sem kenndi ungu mönnunum við Sellandafjall 1952. Erich var einn af færustu svifflugmönnum Þýskalands á þeim tíma og átti mörg met í svifflugi.