Björgunar- og sjúkraflug

Björgunar- og sjúkraflug skipar stóran sess í íslenskri flugsögu. Á Flugsafninu eru varðveittar flugvélin TF-SYN og þyrlan TF-SIF, sem báðar þjónuðu Landhelgisgæslunni dyggilega um áratugaskeið. Þá er einnig varðveitt á safninu flugvélin TF-HIS, sem sjúkraflugmaðurinn Björn Pálsson átti. Auk þess eru aðrar flugvélar á safninu, sem voru nýttar til sjúkraflugs samhliða öðru flugi. Má þar m.a. nefna flugvélina TF-SUX. 

Flugsafnið hlaut styrk úr Safnasjóði árið 2022 til að þess að setja upp sýningu um björgunar- og sjúkraflug, og er menningar- og viðskiptaráðherra og Safnaráði færðar kærar þakkir fyrir stuðninginn.

 

Sjúkraflug á Íslandi

 

Eftir að Flugfélag Íslands nr. 2 var stofnað árið 1928, voru kostir þess að flytja veikt fólk flugleiðis til aðhlynningar fólki augljósir. Fyrsta skrásetta sjúkraflugið á Íslandi var flogið árið 1930, þegar Súlan, Junkers F-13 flugvél Flugfélags Íslands, flaug með dreng frá Kjós við Meðalfellsvatn til Reykjavíkur. Mat læknirinn sem svo að drengurinn þyldi ekki hristinginn við aksturinn.

Flugvélar Flugfélags Íslands fóru ófá sjúkraflugin eftir þetta fyrsta flug og eftir að Flugfélag Akureyrar, síðar Flugfélag Íslands nr. 3, var stofnað árið 1937 og Loftleiðir árið 1944, voru flugvélar þeirra nýttar til sjúkraflugs samhliða öðru flugi. Þannig má lesa í ársskýrslum félaganna að sjúkraflug voru löngum stór þáttur í starfsemi þeirra.

Í lok árs 1949 flaug flugmaðurinn Björn Pálsson sitt fyrsta sjúkraflug á flugvélinni TF-KZA og markaði það upphafið að skipulögðu sjúkraflugi. Á næstu 25 árum flaug Björn og flugmenn Flugþjónustu Björns Pálssonar yfir 3000 sjúkraflug. Bræðurnir Jóhann Magnús og Tryggvi Helgasynir keyptu ásamt Slysavarnardeild kvenna á Akureyri og Rauðakrossdeild Akureyrar, flugvélina TF-HMH, sem var sérstaklega ætluð til sjúkraflugs, í maí 1958. Vélin fórst í janúar 1959 og allir um borð fórust, þ.á.m. Jóhann. Tryggvi hélt merkjum bræðranna á lofti og stofnaði flugfélagið Norðurflug sama ár, sem sinnti sjúkraflugi um árabil.

 

Uppbygging flugvalla og lendingarstaða

Björn Pálsson og Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri unnu náið saman að því að byggðir væru flugvellir og lendingarstaðir víða um land, svo hægt væri að tryggja aðgengi sjúkraflugvéla sem víðast.  Í lok árs 1957 voru flugvellir og lendingarstaðir strax orðnir 86 talsins.  Á níunda áratugnum voru þeir orðnir um 100 talsins.

 

Miðstöð sjúkraflugs á Akureyri

Árið 2000 ákvað heilbrigðisráðherra að miðstöð sjúkraflugs skyldi vera á Akureyri. Flugfélagið Mýflug hefur sinnt sjúkraflugi þaðan og hefur til þess sérútbúnar flugvélar af gerðinni Beechcraft King Air 200; hraðskreiðar flugvélar sem búnar eru jafnþrýstibúnaði.  Norlandair, arftaki Norðurflugs, mun taka yfir þessa þjónustu í byrjun árs 2024.  Það félag starfrækir sömu tegund flugvéla.

Landhelgisgæslan hefur einnig sinnt sjúkraflugi með þyrlum sínum og flugvél. Hún hefur átt í nánu samstarfi við Mýflug við sjúkraflutninga, sér í lagi þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa þurft að sækja veikan eða slasaðan einstakling út á sjó. Þá hefur Mýflug tekið við honum á næsta flugvelli og komið undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa einnig sinnt sjúkraflugi þegar sjúkraflugvélar hafa ekki getað athafnað sig vegna veðurs.

 

Farsælt samstarf við heilbrigðisstarfsfólk

Sjúkraflug byggir á góðri samvinnu flugfélagsins, sem hefur sjúkraflugið með höndum, og heilbrigðisstarfsfólks; lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraflutningamanna og bráðatækna. Fagfólk í heilbrigðisstéttum hefur frá upphafi lagt sitt á vogarskálarnar til að vekja athygli á nauðsyn sjúkraflutninga flugleiðis og hvernig megi betrumbæta þá á hverjum tíma.

 

Fyrsti sjúkraflugmaðurinn

Björn Pálsson (1908-1973)

 

Sá er markað hefur hvað dýpst spor í flugsögu Íslendinga er flugmaðurinn Björn Pálsson. Björn var flugmaður af lífi og sál; hann var ötull félagsmaður í Svifflugfélagi Íslands, sá fyrsti til að ljúka einliðaprófi í flugi á Íslandi árið 1938 og sá fyrsti til að hljóta einkaflugmannsréttindi hérlendis árið 1939.

Björn eignaðist hlut í flugvél af gerðinni Blackburn Bluebird árið 1937, sem bar einkennisstafina TF-LOA. Árið 1949 eignaðist hann loks sína eigin flugvél, TF-KZA, sem var af gerðinni KZ-III. Þrátt fyrir að hún væri ekki sérútbúin til sjúkraflutninga, fór Björn á þeirri flugvél í sitt fyrsta sjúkraflug.

Björn starfaði sem vörubifreiðarstjóri og við húsbyggingar samhliða fluginu allt til ársins 1951. Þá keypti hann fyrstu sérútbúnu sjúkraflugvélina, Auster Mk.5A, TF-LBP, ásamt Lárusi Óskarssyni, og sneri sér alfarið að fluginu. Ári síðar eignaðist Slysavarnafélag Íslands hlut Lárusar í vélinni, og árið 1953 studdi félagið Björn til kaupa á nýrri eins hreyfils sjúkraflugvél, Cessna 180, sem kom til landsins árið 1954. Hún fékk einkennisstafina TF-HIS, en Hið íslenska steinolíufélag studdi einnig kaupin af miklum myndarskap.

TF-HIS reyndist afar vel í þau 20 ár sem hún var notuð til sjúkraflugs; flaug allt að 150 flug á ári og lenti á fjölmörgum flugvöllum og lendingarstöðum um land allt, oft við erfiðar aðstæður. Á veturna var vélin búin skíðum til lendinga og notaði Björn hana þannig til sjúkraflugs til Grænlands. Sennilega er eitt fræknasta sjúkraflug þangað, þegar hann sótti tvær konur í barnsnauð til Scoresbysunds þann 9. maí 1957.

Árið 1960 keypti Björn tveggja hreyfla sjúkraflugvél af gerðinni Beechcraft Twin Bonanza, TF-VOR, sem var mikil bylting fyrir starfsemi hans. Henni óx fiskur um hrygg og 1965 stofnaði Björn Flugþjónustu Björns Pálssonar ásamt Flugfélagi Íslands. Flugþjónustan hafði yfir nokkrum vélum að ráða og Björn réð til sín flugmenn sem sinntu sjúkrafluginu ásamt honum.

Björn Pálsson lést á sviplegan hátt þann 26. mars 1973, þegar TF-VOR, sem hann var farþegi í hrapaði vegna gríðarlegrar ísingar yfir Búrfjöllum. Sonur Björns, Sveinn, rak Flugþjónustuna, um árabil eftir andlát föður síns.

 

Landhelgisgæslan

 

Flugdeild Landhelgisgæslu Íslands

Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð 1. júlí 1926. Í upphafi var henni fyrst og fremst ætlað að sinna eftirliti með ferðum skipa í íslenskri landhelgi en síðar urðu skyldur hennar og hlutverk víðtækari. Þannig sinnir Landhelgisgæslan löggæslu og eftirliti á hafi úti, leit, björgun og sjúkraflutningum. Þar að auki er hún almannavörnum til aðstoðar og hefur með höndum rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og sinnir öðrum eftirlits- og varnartengdum verkefnum í samstarfi við embætti Ríkislögreglustjóra.

Fyrstu áratugina hafði Landhelgisgæslan þrjú varðskip til að sinna hlutverki sínu en var einnig í samstarfi við flugfélög sem voru starfandi frá árinu 1928 við síldarleit og landhelgisgæslu, og leigði af þeim flugvélar.

 

Flugvélar Landhelgisgæslunnar

Landhelgisgæslan hóf sinn eigin flugrekstur 10. desember 1955 þegar hún eignaðist TF-RAN, Consolidated PBY-6A flugbát. Flugvélin þótti henta einkar vel til gæsluflugs og var talin hafa mikinn fælingarmátt fyrir veiðiþjófa. Hún var sú fyrsta á Íslandi sem búin var radar og nýttist hann vel til að staðsetja skip innan landhelginnar. Í áhöfn voru flugstjóri, aðstoðarflugstjóri, tveir siglingafræðingar, sem voru jafnframt skipstjóri og stýrimaður á varðskipunum, vélstjóri og loftskeytamaður. TF-RAN var í notkun til ársins 1963.

Allt frá því að TF-RAN var gefið nafn sjávargyðju norrænu goðafræðinnar hafa loftför Landhelgisgæslunnar borið nöfn ásynja, valkyrja og völva. Þannig ber flugvél Landhelgisgæslunnar einkennisstafina TF-SIF og þyrlurnar þrjár TF-EIR, TF-GNA og TF-GRO. Ásynjan Eir var sögð læknir bestur, völvan Gróa læknaði með seiðum og Gná átti hestinn Hófvarpni, sem gat riðið bæði yfir úthöf og um háloftin.

Árið 1962 eignaðist Landhelgisgæslan Douglas DC-4 Skymaster flugvél, TF-SIF. Fokker F-27 200 flugvélin TF-SYR leysti hana af hólmi tíu árum síðar og bættist önnur sams konar flugvél, TF-SYN, í flotann árið 1977. TF-SYN þjónaði Landhelgisgæslunni dyggilega til ársins 2009 en þá var fest kaup á Dash 8 Q300 flugvélinni TF-SIF og TF-SYN komið fyrir á Flugsafni Íslands.

 

Þyrlur Landhelgisgæslunnar

Fyrsta þyrla Landhelgisgæslunnar var TF-EIR, Bell 47j, sem keypt var í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands árið 1965. Hún brotlenti í rannsóknaflugi í Rjúpnafelli árið 1971 en engan sakaði. Árið 1972 keypti Landhelgisgæslan sína fyrstu björgunarþyrlu, TF-GNA, sem var af gerðinni Sikorsky S-62 en hún brotlenti í Skálafelli haustið 1975 en mannbjörg varð. Gerð var stutt tilraun til notkunar á litlum Bell þyrlum árin 1973 og 1974 en þær þóttu ekki reynast vel. Þess í stað var ráðist í kaup á öflugri björgunarþyrlu, TF-RAN, sem var af gerðinni Sikorsky S-76, árið 1976. TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum 8. nóvember 1983 og með henni fjögurra manna áhöfn. Slysið var það mannskæðasta í sögu Landhelgisgæslunnar og var mikið reiðarslag fyrir hana og þjóðina alla.

Eftir slysið var velt upp þeim möguleika að láta varnarliði Bandaríkjahers eftir björgun og leit með þyrlum, svo mikið var áfallið. En tekin var ákvörðun um að hefjast aftur handa og efla þyrlusveitina enn frekar. Þar voru flugmennirnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson í fararbroddi. Keypt var þyrlan TF-SIF, af gerðinni Aerospatiale SA.365N Dauphin. Þyrlan reyndist afar vel og vann þyrlusveitin á henni mörg frækin björgunarafrek. Þyrlan lenti í sjónum við Straumsvík árið 2007 þegar hún var við æfingaflug. Mannbjörg varð. TF-SIF er til sýnis í Flugsafninu.

Árið 1995 var björgunarþyrlan TF-LIF, Aerospatiale Super Puma AS-332L1, keypt. Hún var stærri og öflugri en TF-SIF og gat athafnað sig við mun erfiðari aðstæður. Afrekin sem hún vann voru mörg, má þar m.a. nefna björgun áhafna þriggja skipa sem lentu í sjóskaða á sex daga tímabili í marsmánuði 1997. TF-LIF var í notkun til ársins 2020.

Fram til ársins 2006 hafði varnarlið Bandaríkjahers lagt Landhelgisgæslunni lið við björgunarstörf en eftir brotthvarf hersins var ljóst að styrkja þurfti þyrlusveitina verulega. Frá þeim tíma hefur Landhelgisgæslan bætt enn frekar við flotann sinn og hefur nú yfir þremur Airbus Super Puma H225 að ráða, TF-EIR, TF-GNA og TF-GRO.

TF-LIF á Flugsafnið

TF-LIF var í notkun til ársins 2020. Hún var seld sænska fyrirtækinu ex-Change Parts AB árið 2023. Sænska fyrirtækið fjarlægði þá hluti sem það hugðist nýta og gaf síðan Flugsafni Íslands þyrluna til eignar. Í góðu samstarfi við öldungaráð Landhelgisgæslunnar, Landhelgisgæsluna og ET flutninga var TF-LÍF flutt norður á Flugsafnið í mars 2024. Auk þyrlunnar gaf eX-Change Parts AB safninu hluti til þess að gera þyrluna sýningarhæfa af miklum góðhug og kostuðu Eimskip og Samherji flutninginn á varahlutunum heim til Íslands. Er öllum sem hafa komið að verkefninu færðar bestu þakkir fyrir.  Vinna hefst við að gera þyrluna sýningarhæfa í júní 2024 og verður henni komið fyrir á varanlegum stað í safninu í lok sumars.