Flugsagan

Fyrsta flugið

Fyrsta flug flugvélar á Íslandi var farið úr Vatnsmýrinni í Reykjavík þann 3. september árið 1919. Flugvélin var bresk af gerðinni Avro 504K. Flugmaðurinn var Cecil Faber.

Fyrsta flugfélag á Íslandi, Flugfélag Íslands, var stofnað í Reykjavík laugardaginn 22. mars 1919. Flugfélagið stóð fyrir kaupum á fyrstu flugvélinni sem keypt var til Íslands og var af gerðinni Avro 504K. Flugvélin var smíðuð í Bretlandi en keypt frá Danmörku og kom til landsins á árinu 1919. Fyrsta flug hennar var farið úr Vatnsmýrinni þann 3. sept það ár. Flugmaðurinn var danskur, Cecil Faber að nafni. Félagið stóð fyrir flugsýningum og útsýnisflugi með farþega í tvö sumur, en var lagt niður á árinu 1920 og flugvélin seld. Sumarið 1920 var flugmaður vélarinnar Vestur-Íslendingur að nafni Frank Fredericksen.

Önnur tilraundr. Alexander Jóhannesson var frumkvöðullinn að baki stofnun Flugfélags Íslands nr.2 árið 1928.Fyrsta farþegaflugið innanlands á íslandi var farið 4. júní 1928 frá Reykjavík til Akureyrar með viðkomu á Ísafirði og Siglufirði.

Flugfélag Íslands, numer tvö í röðinni var stofnað í Reykjavík 1. maí 1928 og fyrsta farþegaflug á vegum þess var farið frá Reykjavík til Akureyrar, með viðkomu á Ísafirði og Siglufirði, 4. júní sama ár. Meðal farþega var dr. Alexander Jóhannesson, einn af frumkvöðlum íslendinga í flugmálum. Flugfélagið tók á leigu flugvélar frá Þýskalandi ásamt áhöfnum. Fyrsta flugvélin var af Junkers F.13 og bar einkennisstafina D-463. Fjórar Junkers vélar voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar á Íslandi á árunum 1928 til 1931, þó aldrei nema tvær í einu, þrjár þeirra voru af gerðinni Junkers F.13 og ein af gerðinni Junkers W.33d. Vélarnar báru íslensk nöfn; Súlan, Veiðibjallan og Álftin. Árið 1930 fengu flugvélarnar íslenska einkennisstafi; ÍSLAND 1, ÍSLAND 2 og ÍSLAND 3. Árið 1929 komu fyrstu íslensku flugvirkjarnir til starfa hjá félaginu. Þeir voru Björn Olsen, Gunnar Jónasson og Jóhann Þorkelsson. Fyrsti íslenski atvinnuflugmaðurinn, Sigurður Jónsson, hóf störf hjá Flugfélagi Íslands árið 1930 og annar íslenskur flugmaður, Björn Eiríksson, kom til starfa árið eftir. Flugfélag Íslands hætti starfsemi árið 1931.

Junkers W.33d, ÍSLAND 1, "Súlan" á Akureyrarpolli.

Nýtt upphafGrunau IX renniflugan er fyrsta flugtæki Svifflugfélags Akureyrar. Hún er enn til og var henni flogið síðast árið 2004.

Svifflugfélag Íslands var stofnað 10. ágúst 1936, Flugmálafélag Íslands var svo stofnað 25. ágúst það sama ár og Svifflugfélag Akureyrar var stofnað 9.apríl 1937. Þessi félög starfa enn af fullum krafti. Margir af eldri flugstjórum hjá íslensku flugfélögunum byrjuðu sinn flugferil í sviffluginu. Fyrsta flugtæki Svifflugfélags Akureyrar var rennifluga af gerðinni Grunau IX. Hún er enn til og er í flughæfu ástandi. Flugfélag Akureyrar hf. var stofnað á Akureyri 3. júní 1937. Agnar Kofoed-Hansen , síðar flugmálastjóri, var aðal hvatamaðurinn en Vilhjálmur Þór kaupfélagsstjóri KEA, á Akureyri gekkst fyrir stofnun fyrirtækisins og var fyrsti stjórnarformaður þess. Fyrsti forstjóri og flugstjóri Flugfélags Akureyrar var ráðinn, Agnar Kofoed-Hansen. Keypt var flugvél af gerðinni WACO YKS-7 TF-ÖRN, kölluð Örninn. Farþegaflug og póstflug til Reykjavíkur og fleiri staða á landinu hófst árið 1938. Árið 1939 hvarf Agnar Kofoed-Hansen til annarra starfa og við starfi hans sem flugmaður og framkvæmdastjóri Flugfélags Akureyrar tók Örn Ó. Johnson.

Fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar var af gerðinni Waco YKS-7, TF-ÖRN.

Flugfélag Íslands

Á aðalfundi Flugfélags Akureyrar 13. mars 1940, var samþykkt að breyta nafni félagsins í Flugfélag Íslands. Þetta var þriðja flugfélagið með þessu nafni og það félag sem í raun lifir enn í dag. Keypt var önnur flugvél af sömu gerð, TF-SGL og fékk hún nafnið Haförninn. Fyrsta tveggja hreyfla flugvél Flugfélagsins var tekin í notkun í apríl 1942. Hún var af gerðinni Beechcraft 18D, skrásett TF-ISL. Þessi flugvél brann á flugvellinum við Stóra Kropp í Borgarfirði árið 1945 og var önnur keypt í staðinn. Á árinu 1944 voru keyptar tvær tveggja hreyfla vélar frá Englandi. Þær voru af gerðinni de Havilland Rapide,
TF-ISM
og TF-ISO. Á stríðsárunum voru þessar flugvélar málaðar rauðar, til aðgreiningar frá herflugvélum.

Vegna skorts á flugvöllum á landinu var gripið til þess ráðs að kaupa sjóflugvélar, sem höfðu verið í notkun í stríðinu. Þær sem mest komu við sögu voru flugbátar af gerðunum Grumman Goose og Consolidated Catalina svo og sjóflugvélar af gerðinni Noorduyn Norseman. Árið 1944 keypti Flugfélag Íslands Consolidated PBY-5 Catalina flugbátinn TF-ISP (í Miami í Florida) í Bandaríkjunum. Flugbátnum var flogið heim frá New York í október 1944 og var fyrsta íslenska flugvélin til að fljúga milli landa. Flugstjóri var Örn Ó. Johnson og með honum voru Smári Karlsson flugmaður, Sigurður Ingólfsson flugvélstjóri og tveir Bandaríkjamenn, flugmaður og flugvélstjóri. Fljótlega eftir komuna til landsins var hafist handa við að breyta flugvélinni til farþegaflutninga. Þetta var stærsta flugvél íslenska flugflotans og gat tekið 22 farþega.

Loftleiðir

Stofnendur Loftleiða hf voru Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson. Þeir festu kaup á eins hreyfils, fjögurra sæta flugvél í Kanada árið 1943 af gerðinni Stinson Reliant og flugu henni til New York, þaðan sem þeir tóku hana með sér sjóleiðis til Íslands. Hún fékk einkennisstafina TF–AZX. Þetta varð upphafið að Loftleiðum hf, en félagið var formlega stofnsett í mars 1944. Haustið 1944 fór Sigurður Ólafsson vestur um haf og keypti aðra Stinson Reliant flugvél, sem einnig var flutt sjóleiðis til Íslands. Flugvélin var fyrst skráð með einkennisstafina TF-BZX, en síðar TF - RVB. Í þessari sömu ferð keypti Sigurður fyrsta Grumman Goose flugbát Loftleiða, TF-RVK, og flaug honum til Íslands um Labrador, Narssarssuaq og Ikateq, afskekktan flugvöll á Austur Grænlandi, sem er skammt frá Kulusuk. Á fyrstu árunum samanstóð innanlandsflugfloti Loftleiða af Grumman Goose flugbátum, Noorduyn Norseman sjóflugvélum, Avro Anson og Vultee Stinson. Síðar komu við Douglas DC-3 (TF-RVM) og PBY-5A Canso (TF-RVG og TF-RVR).
Fyrsta Grumman Goose flugbátur Loftleiða kom til landsins haustið 1944.

Fyrsta Grumman Goose flugbátur Loftleiða kom til landsins haustið 1944.

Fyrsti Douglasinn

Flugfélag Íslands keypti fyrstu flugvélina af gerðinni Douglas DC 3
(C-47A) Dakota,
TF-ISH, af bandaríska hernum árið 1946. Þessi flugvél fékk seinna nafnið "Gljáfaxi" og er enn flughæf, í eigu Landgræðslu Íslands og ber nafnið Páll Sveinsson. Alls keypti Flugfélag Íslands 6 vélar af þessari gerð og reyndust þær mjög vel. Ennfremur leigði Flugfélagið tvær Dakota flugvélar frá Bretlandi vegna tímabundina verkefna. Douglas Dakota flugvélar voru í notkun hjá Flúgfélagi Íslands allt til ársins 1973, eða í 27 ár. Auk innanlandsflugs voru þessar vélar mikið notaðar á Grænlandi svo og til Færeyjaflugs. Þristurinn kom einnig við sögu Loftleiða, en félagið hafði eina Dakota vél, TF-RVM "Helgafell", í rekstri innanlands um árabil. Fræg eru svo björgunarafrek Loftleiðamanna þegar þeir grófu upp C-47 skíðaflugvél flughers bandaríkjamanna eftir vetrardvöl á Vatnajökli og flugu burt á henni til Reykjavíkur. Þessi flugvél fékk nafnið "Jökull" og bar einkennisstafina TF-RVP. Fleiri Douglas DC-3 voru í notkun hérlendis því flugfélagið Flugsýn starfrækti þrjár flugvélar af þessari gerð á sjöunda áratug síðustu aldar.



Millilandaflugið hefst

Fyrsta millilandaflug íslensks flugfélags var farið á Catalina PBY-5 flugbáti Flugfélags Íslands TF-ISP til Largs á Skotlandi, 11. júlí árið 1945. Um borð var fjögurra manna áhöfn og fjórir farþegar. Flugstjóri var Jóhannes Snorrason og með honum í áhöfn voru Smári Karlsson flugmaður, Sigurður Ingólfsson flugvélstjóri og Jóhann Gíslason loftskeytamaður. Að kröfu breta voru einnig með í för loftskeytamaður og siglingafræðingur æur breska flughernum. Áætlunarflug Flugfélags Íslands milli Íslands, Bretlands og Danmerkur hófst árið 1946 með Liberator leiguflugvélum frá flugfélaginu Scottish Airlines. Árið 1948 tók Flugfélagið í notkun fyrstu flugvél sína af gerðinni Douglas DC-4 (C-54) Skymaster, TF-ISE, sem fékk nafnið "Gullfaxi ".
Fyrsta millilandaflugvél Loftleiða, Douglas DC-4 (C-54) Skymaster, TF-RVH "Hekla" kom til landsins árið 1947. Ári síðar bættist önnur slík vél í flugflota félagsins TF-RVC "Geysir". Loftleiðir var í samkeppni við Flugfélag Íslands, um innanlandsflugið um árabil, félögin höfðu sín áhrifasvæði en samkeppni var samt mjög hörð á milli þeirra. Það var snemma árs 1952 að stjórn Loftleiða ákvað að hætta innanlandsflugi og stunda eingöngu millilandaflug. Fljótlega eftir að innanlandsflug Loftleiða lagðist af hófst samvinna félagsins við norska flugfélagið Braathen's S.A.F.E. Það samstarf snérist einkum að sölu- og markaðsmálum annars vegar svo og viðhaldsmálum hinsvegar og sá norska flugfélagið um viðhald og skoðanir á flugvélum Loftleiða. Einnig var um tíma samstarf um samnýtingu flugvéla og flugleyfa félaganna þannig að hægt var að fljúga á þeirra vegum frá New York um Ísland og Noreg alla leið til Hong Kong. Þessi hluti samstarfsins stóð samt ekki lengi yfir þar sem Braathens fékk ekki endurnýjað flugleyfið sitt til utanlandsflugs eftir 1954 vegna þrýstings frá norræna flugrisanunum SAS. Árið 1954 hófst fyrir alvöru markaðssókn Loftleiða á Norður Atlantshafsleiðum þar sem ferðalöngum var boðið mun lægra fargjöld en þá þekktust. Þetta var byrjunin á hið svo kallaða "Loftleiðaævintýri". Þarna var það litla flugfélagið frá litla Íslandi sem var komin í hörku slag við stóru flugfélögin beggja vegna Atlantsála. Ári síðar hófst flug Loftleiða til Luxemborgar.
 
Vickers 759 Viscount skrúfuþotur Flugfélags Íslands, TF-ISN og TF-ISU, komu til landsins vorið 1957. Þetta voru fyrstu íslensku flugvélarnar með jafnþrýstibúnaði í farþegarými.



Fyrstu skrúfuþoturnar....

Í byrjun maímánaðar 1957 tók Flugfélag Íslands í notkun tvær nýjar skrúfuþotur af gerðinni Vickers 759 Viscount, TF-ISN"Gullfaxi" og TF-ISU "Hrímfaxi". Með tilkomu þessara flugvéla varð bylting í farþegaflugi til og frá Íslandi. Þetta voru fyrstu íslensku flugvélarnar með jafnþrýstibúnaði og gátu þær því flogið í hærri hæðum en áður þekktust hjá íslenskum flugfarþegum auk þess sem þær voru mun hraðfleygari en þær Skymaster flugvélarnar sem þá voru í notkun á millilandaleiðum. Síðar tók Flugfélagið í notkun Douglas DC-6B Cloudmaster vélar á millilandaleiðum en þær voru stærri en Viscount vélarnar og höfðu meira flugþol.



....og stærstu flugvélarnar.

Árið 1959 keyptu Loftleiðir fyrstu vélina sína af gerðinni Douglas DC-6B Cloudmaster. Vélin hafði einkennisstafina TF-LLA og var var skírð "Leifur Eiríksson" í höfuðið á hinum merka sæfara frá víkingaöld. Alls eignaðist félagið fimm slíkar flugvélar og voru þær allar keyptar af flugfélaginu Pan American World Airways, eða Pan Am. Þetta voru miklir vinnuhestar og notkun þeirra hafði mikil áhrif á framþróun Norður-Atlantshafsflug félagsins. Þessar vélar, sem tóku 85 farþega, voru með jafnþrýstibúnaði og voru mun hraðfleygari en Skymaster flugvélarnar sem félagið var með í notkun. Tímamót urðu í sögu Loftleiða árið 1964 þegar félagið tók í notkun fyrstu vél sína af gerðinni Canadair CL 44D-4. Þetta voru langdrægar og hraðfleygar skrúfuþotur sem tóku 160 farþega. Tveimur árum síðar var fyrsta vélin af lengri gerðinni CL-44J tekin í notkun. Þessi lengri útgáfa CL-44 gat borið 189 farþega og var um tíma stærsta farþegaflugvél í áætlunarflugi á Norður-Atlantshafsleiðum.



Þotuöldin hefst á Íslandi

Fyrsta íslenska þotan, Boeing 727-108C Flugfélags Íslands, TF-FIE, "Gullfaxi", kom til landsins í júní árið 1967. Það má segja að með komu fyrstu þotunar hafi frumherja tímabilið í íslenskri flugsögu liðið undir lok, íslensk flugfélög voru komin inn í nútímann á flest öllum sviðum og stóðu erlendum flugfélögum jafnfætis.

Loftleiðir komu að stofnun Flughjálpar árið 1968, en það félag sinnti hjálparflugi til stríðshrjáðra íbúa Bíafra. Meðeigendur Loftleiða í Flughjálp voru kirkjudeildir á Norðurlöndunum fimm. Loftleiðir áttu stóran þátt í stofnun flugfélagsins Cargolux árið 1970 og átti um tíma þriðjungshlut í því félagi. Árið 1969 yfirtóku Loftleiðir flugfélagið International Air Bahama sem var með áætlunarflug milli Luxemborgar og Bahamaeyja. Loftleiðir tóku sína fyrstu þotu í notkun árið 1970 en hún var af gerðinni Douglas DC-8-63CF. Þessar langdrægar þotur höfðu sæti fyrir 249 farþega.

 
Ein af flugvélum Flughjálpar, Douglas DC-6B TF-AAF.



Sameining flugfélaganna

Flugfélag Íslands og Loftleiðir sameinuðust árið 1973 undir nafninu Flugleiðir hf, sem formlega hófu göngu sína 1. ágúst 1973. Í upphafi var flugfloti millilandsflugs hins sameinaða flugfélags samsettur af Douglas DC 8 og Boeing 727 þotum. Flugleiðir gerðu tilraun til breiðþotuflugs árið 1979 þegar félagið leigði eina Douglas DC-10-30. Flugvélakosturinn í millilandaflugi var síðan endurnýjaður með nýjum Boeing 737-408 árið 1989 og Boeing 757-208 þotum árið 1990. Fyrrnefnda tegundin bar 156 farþega og hin síðarnefnda 189 farþega. Í dag (2007) samanstendur flugfloti Icelandair af Boeing 757-200 og 300 þotum og Boeing 767-300 breiðþotum. Síðarnefnda tegundin er þó aðallega notuð við leiguflugsverkefni Loftleiða erlendis. Nafnið Loftleiðir var endurvakið fyrir nokkrum árum og er notað fyrir leiguflugsverkefni á vegum Icelandair Group.
 
Fyrsta Boeing 757-208 Flugleiða TF-FIH, "Hafdís", stuttu eftir komuna til landsins í apríl 1990.
 
"Blikfaxi", TF-FIJ, fyrsta Fokker F.27-100 Friendship Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli stuttu eftir komuna til landsins í maí árið 1965.



Endurnýjun innanlands

Endurnýjun innanlandsflota Flugfélags Íslands hófst árið 1965 með kaupum á Fokker F.27-100 Friendship TF-FIJ. Þessar vélar báru 48 farþega og voru afköst einnar F.27 vélar á við afköst þriggja DC-3. Aflmeiri F.27 vélar voru keyptar árið 1972. Alls þjónuðu F.27 Friendship Flugfélagi Íslands og síðar Flugleiðum í 27 ár. Aftur var innanlandsflotinn endurnýjaður árið 1992 þegar keyptar voru fjórar Fokker 50 flugvélar.

 

 
Bræðurnir Tryggvi og Jóhann M. Helgasynir við Cessna 180 TF-HMH.



Norðurflug

Bræðurnir Jóhann og Tryggvi Helgasynir eignuðust sína fyrstu flugvél árið 1955. Það var Auster V sjúkraflugvél, TF-LBP. Árið 1958 keyptu þeir flugvél af gerðinni Cessna 180, TF-HMH , til sjúkra- og leiguflugs. Jóhann fórst með þeirri vél í janúar 1959. Tryggvi hélt rekstrinum áfram og stofnaði í framhaldinu Norðurflug, en það var ekki formlega skráð fyrr en árið 1964. Tryggvi keypti árið 1959 tveggja hreyfla flugvél af gerðinni Piper PA-23-150 Apache , TF-JMH. Tryggvi var einnig með flugkennslu og notaði til þess flugvélar eins Piper J-3 Cub og Piper PA-22-108 Colt. Norðurflug keypti síðar fleiri vélar s.s. Piper PA-23-250 Aztec, Beechcraft D-18 (C-45H) og Beechcraft E-18S. Félagið stundaði farþegaflug á norðurlandi og leiguflug m.a. til Grænlands.

 
Tryggvi Helgason hóf flugkennslu á Piper J-3 Cub TF-JMA.



og Flugfélag Norðurlands

Tryggvi seldi félagið árið 1974 og nýjir eigendur nefndu það Flugfélag Norðurlands. Starfsemin var aukin verulega og flugvélakostur einnig. Keyptar voru de Havilland Canada DHC-6 Twin Otter vélar sem tóku 19 farþega og Piper PA-31-350 Chieftain sem hafði rúm fyrir 9 farþega. Síðar komu til sögu hraðfleygari vélar eins og Mitsubishi MU-2B, TF-JMC, og Fairchild Metro III, TF-JMK. Flugfélag Norðurlands stundaði áætlunar og leiguflug til margra staða innanlands, en Grænlandsflugið var alla tíð ríkur þáttur í starfseminni. Árið 1981 Félagið sameinaðist innanlandsdeild Flugleiða 1997 sem fyrr segir.
 
Fairchild Metro III Flugfélags Norðurlands TF-JMK bættist í flugflota félagsins árið 1991.



Sameining innanlands

Nafnið Flugfélag Íslands var svo endurvakið árið 1997, þegar innanlandsflug Flugleiða og Flugfélag Norðurlands, sem hafði aðsetur á Akureyri, voru sameinuð. Hið endurreista félag hefur aðsetur á Akureyri. Flugfloti félagsins árið 2007 samanstendur af sex Fokker 50 , tveimur de Havilland Canada DHC-6-300 Twin Otter og tveimur Bombardier DHC-8 Dash 8.
 
Tveir arftakar þristins á Akureyrarflugvelli; de Havilland Canada DHC-8-100 TF-JMA og Fokker 50 TF-JMS Flugfélags Íslands. Ef vel er gáð sést Douglas DC-3 TF-NPK á milli vængja vélanna.



Air Viking

Flugfélagið Air Viking hóf starfsemi sumarið 1970 með fjögurra hreyfla skrúfuþotu af gerðinni Vickers Vanguard. Flogið var aðallega til Mallorka og London á vegum Ferðaskrifstofunnar Sunnu, en félagið flaug einnig fyrir erlenda aðila milli staða í Evrópu. Starfsemi Air Viking lá niðri frá hausti 1970 til sumarsins 1973 er félagið tók á leigu fjögurra hreyfla þotu af gerðinni Convair 880. Árið 1974 keypti Air Viking tvær 149 farþega Boeing 720 þotur af bandaríska flugfélaginu United Airlines. Þessar þotur voru notaðar við leiguflug til og frá Íslandi og á erlendum mörkuðum. Haustið 1975 varð Air Viking fyrst íslenskra flugfélaga til að stunda pílagrímaflug er það flutti pílagríma frá ýmsum löndum í Vestur-Afríku til Jeddah í Saudi-Arabíu. Flugvélar Air Viking fóru víða um lönd í leiguflugi m.a. til Kanada, Karabíuhafsins, Thaílands og Suður-Kóreu. Air Viking varð einnig fyrsta íslenska flugfélagið til að fljúga leiguflug frá Íslandi til Sóvétríkjanna.



Vængir

Flugfélagið Vængir starfaði á árunum 1970 til 1979. Það stundaði áætlunar- og leiguflug aðallega til staða á vesturlandi (Búðardals, Stykkishólms, Rifs og Reykhóla), vestfjörðum (Tálknafjarðar, Bíldudals, Þingeyrar, Flateyrar, Hólmavíkur og Gjögurs) og á norðurlandi (Hvammstanga, Blönduóss, Siglufjarðar og Mývatns). Í flugflota Vængja voru flugvélar af ýmsum gerðum m.a. Beechcraft 18 og Piper PA-23 Apache. Vængir varð fyrsta flugfélagið hérlendis til að taka í notkun flugvél af gerðinni BN-2a Islander (1971) og fyrsta félagið hérlendis til að taka í notkun DHC-6 Twin Otter (1973).
 
Boeing 707-324C Arnarflugs TF-VLJ yfirflýgur Reykjavíkur- flugvöll. Þessi flugvél sinnti eingöngu vöruflutningaflugi erlendis þau fimm ár sem vélin var á skrá hér.



Arnarflug

Arnarflug hf var stofnað árið 1976 af fyrrverandi starfsmönnum Air Viking og fleirum. Þetta félag stundaði leiguflug víða um heiminn, en einnig til og frá Íslandi. Fyrstu flugvélar félagsins voru þotur af gerðinni Boeing 720, en síðar voru notaðar Boeing 707-320C og Douglas DC-8 þotur við margvísleg verkefni. Haustið 1979 yfirtók Arnarflug sérleyfi til flugs á ýmsum flugleiðum innanlands, sem áður voru í höndum Flugfélagsins Vængja. Arnarflug hóf áætlunarflug milli Íslands og Evrópu árið 1982. Arnarflug var fyrsta íslenska flugfélagið til að taka í notkun Boeing 737 þotur (1981). Arnarflug hf. hætti starfsemi árið 1990. Arnarflug innanlands hf. varð árið 1989 fyrsta íslenska flugfélagið til að taka í notkun skrúfuþotu Dornier Do.228-200. Félagið sameinaðist Flugskólanum Flugtaki árið 1991 og fékk hið sameinaða fyrirtæki nafnið Íslandsflug.

 
Beechcraft 99 Airliner Flugtaks TF-ELC og TF-ELD.



Íslandsflug

Við stofnun Íslandsflugs samanstóð flugfloti félagsins af flugvélum af gerðunum Beech 99, de Havilland Canada Twin Otter og Piper Chieftain auk þess sem það hafði afnot af vél af gerðinni Beechcraft 200 King Air í eigu Höldurs hf. Íslandsflug stundaði áætlunarflug innanlands sem og leiguflug innanlands og til Grænlands. Árið 1992 tók félagið í notkun fyrstu flugvél sína af gerðinni Dornier Do.228-200. Þessi flugvélategund var ekki óþekkt hérlendis því Arnarflug innanlands hafði áður rekið leiguvélar af þessari gerð árin 1989 og 1990. Samstarf Íslandsflugs og DHL um pakkaflug til og frá Bretlandi hófst árið 1994 með Fairchild Metro III TF-BBG , sem var í vöruflugi milli landa á nóttinni og í farþegaflugi innanlands á daginn. Þetta flug gafst vel og árið 1996 var tekin í notkun vél af gerðinni ATR.42 TF-ELJ til þessa flugs. Þegar innanlandsflug var gefið frjálst árið 1997 hófst gríðarlegt samkeppni á flest öllum leiðum milli Íslandsflugs og Flugfélags Íslands. Árið 1997 tók Íslandsflug í notkun fyrstu þotuna sína sem var af gerðinni Boeing 737-210C. Eftir árið 1998 lögðu stjórnendur Íslandsflugs aukin áhersla á erlendum verkefnum. Íslandsflug var fyrsta íslenska flugfélagið til að taka í notkun evrópskar breiðþotur af gerðunum Airbus A310 og Airbus A300. Íslandsflug hætti innanlandsflugi árið 2003 og færðust flugleiðir félagsins yfir til Landsflugs. Það félag hætti áætlunarflugi í lok árs 2006.

 
Dornier Do.228-200 Íslandsflugs TF-ELA.
 
Íslandsflug hóf smápakkaflugi til Evrópu í tengslum við hraðsendingaþjónustu DHL árið 1994 með Fairchild Metro III TF-BBG.



Flugfélagið Ernir

Hörður Guðmundsson stofnaði Flugfélagið Ernir á Ísafirði árið 1969 með flugvél af gerðinni Cessna 180. Félagið var með umfangsmikið starfsemi í leigu- póst- og sjúkraflugi um alla Vestfirði í rúmlega aldarfjórðung. Af öðrum flugvélategundum Ernis má nefna Helio Courier, Britten-Norman Islander, Piper Aztec, Piper Chieftain, Cessna Titan, de Havilland Canada DHC-6-300 Twin Otter, Cessna 206 og Cessna 185. Árið 1995 ákváðu eigendur Ernis að leggja félagið niður og snúa sér að öðrum flugverkefnum. Það var svo endurreist í Reykjavík árið 2003 og tekin í notkun níu farþega skrúfuþota af gerðinni Cessna 441 Conquest.

Í ársbyrjun 2007 hóf Flugfélagið Ernir áætlunarflug á flugleiðunum sem áður voru í höndum Landsflugs. Í flugflota Ernis eru nú sex flugvélar þar af eru tvær 19 sæta British Aerospace Jetstream 32 skrúfuþotur, ein Cessna 441 Conquest II, ein Cessna F406 Caravan II, ein Cessna 207 og ein Cessna 185.

 
Boeing 707-344B TF-IUG var ein af fyrstu flugvélum Flugfélagsins Atlanta. Hér sést TF-IUG á flugvellinum í Paphos á Kýpur árið 1988, en vélin var þá notuð við leiguverkefni þar sem flogið var með sólarlandafarþega frá Finnlandi til Kýpurs og Krítar.



Flugfélagið Atlanta

Flugfélagið Atlanta hf. var stofnað árið 1986, af Arngrími Jóhannssyni og Þóru Guðmundsdóttur. Starfsvið félagsins hefur frá upphafi byggst á leigu flugvéla til annarra. Fyrstu flugvélar félagsins voru þotur af gerðinni Boeing 707-320 sem voru teknar á leigu í stuttan tíma hver til að sinna ákveðnum leiguverkefnum. Fyrsta langtímaverkefni félagsins hófst árið 1989 með leigu á Boeing 737-210C þotu til flugfélagsins Finnair. Þetta verkefni stóð yfir í fjögur ár. Boeing 737 þotur voru notaðar við margvísleg verkefni Atlanta í fjórum heimsálfum.

Árið 1991 tók Flugfélagið Atlanta í notkun sína fyrstu breiðþotu, Lockheed L-1011 TriStar TF-ABG. Þetta var jafnframt fyrsta breiðþotan sem skrásett var á Íslandi. Tveimur árum síðar tók félagið í notkun sína fyrstu Boeing 747 risabreiðþotur, TF-ABK, TF-ABL og TF-ABR. Af öðrum tegundum sem hafa verið í notkun Atlanta má nefna Boeing 767 (2001), Boeing 757 (2002) og Boeing 747-400 (2004). Flugfélagið Atlanta sameinaðist Íslandsflugi í ársbyrjun 2005 undir nafni Atlanta. Flugvélar Atlanta hafa sinnt leiguflugsverkefnum fyrir flugfélög í meira en 50 þjóðlöndum í sex heimsálfum. Í dag er Flugfélagið Atlanta eitt það stærsta í heimunum á sínu sviði, það er við útleigu flugvéla til annarra flugfélaga með áhöfnum, viðhaldi og trygingum, eða það sem kallast á fagmáli ACMI, (Aircraft, Crew, Maintenance, Insurance).
 
Boeing 737-204 Flugfélagsins Atlanta TF-ABD, "Karl Magnússon", var tekin í notkun til að sinna leiguflugi félagsins til og frá Íslandi árið 1993.



Flugmálastjórn Íslands

Flugmálastjórn Íslands: Þann 30. janúar 1945 samþykkti Alþingi lög um "gerð flugvalla og lendingarstaða fyrir flugvélar." Í þeim kvað einnig á um "sérstaka stjórn flugmála" og flugmálastjóra. Í lögum þessum er lagður formlegur grundvöllur að flugmálastjórn, sem sett var á laggirnar skömmu síðar. Erling Ellingsen verkfræðingur var skipaður flugmálastjóri 21.júní 1945 og tók skipunin gildi hinn 1. júlí það ár og er upphaf Flugmálastjórnar Íslands miðað við þann dag. Aðrir sem hafa gegnt embætti flugmálastjóra eru Agnar Kofoed-Hansen, Pétur Einarsson, Þorgeir Pálsson og Pétur Maack.



Landhelgisgæsla Íslands

Fyrsta tilraunin til að fylgjast með skipaflotan við Íslandsstrendur var gerð árið 1928. Eftir síðari heimsstryrjöld leigði Landhelgisgæsla Íslands stöku sinnum flugvélar til að fylgjast með fiskiskipum innan landhelginnar en það eftirlit var ekki reglubundið. Landhelgisgæslan eignaðist sína fyrstu flugvél árið 1955. Þetta var PBY-6A Catalina flugbátur, TF-RAN, sem áður var í eigu Flugmálastjórnar Íslands. Douglas C-54, TF-SIF, var í notkun Landhelgisgæslunnar á árunum 1962 til 1971. Árið 1969 var gerð tilraun með útgerð tveggja Grumman Albatross flugbáta, sem fengnar voru að láni frá Bandaríkjunum. Þessi tilraun þóttist ekki takast vel. Fokker 27-200 flugvélar hafa þjónað Landhelgisgæslunni frá 1972 við eftirlit og björgunarstörf. Fyrsta þyrla LHG var af gerðinni Bell 47J, TF-EIR. Þessi þyrla var í notkun frá 1965 til 1971. Af öðrum þyrlum LHG má nefna Hughes 500D (TF-GRO), Sikorsky S-62A (TF-GNA), Sikorsky S-76A (TF-RAN) og Aerospatiale AS.350B Ecureuil (TF-GRO). Núverandi flugfloti LHG (2007) samanstendur af einni Fokker F.27-200 (TF-SYN), einni Aerospatiale (nú Eurocopter) SA.365N Dauphin 2 (TF-EIR) og þremur Eurocopter AS.332L1 Super Puma (TF-LIF, TF-GNA og LN-OBX).



Fyrstu sjúkraflugvélarnar

Björn Pálsson hóf sjúkraflug árið 1948 og notaði flugvél af danskri gerð, S.A.I. KZ-III, TF-KZA. Fyrsta flugvélin á Íslandi sem var sérútbúin til sjúkraflugs var keypt til landsins árið 1951, af Birni Pálssyni og Rauðakrossi Íslands. Hún var bresk, af gerðinni Auster V og var skráð TF-LBP. Flugvélin var keypt af breska flughernum. Björn var með umfangsmikill flugrekstur allt til dauðadags árið 1973.

Árið 1954 er TF-LBP eign Slysavarnardeild norðanlands og Rauða kross Akureyrar og síðan skráð eign Jóhanns og Tryggva Helgasona árið 1955. Þess má geta, að báðar þessar fyrstu sjúkraflugvélar eru ennþá til og eru báðar á Akureyri. Önnur þeirra er flughæf og er til sýnis í Flugsafni Íslands, en hin er í endursmíðun.

 



Fyrstu flugskólarnir

Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945 voru stofnaðir fyrstu flugskólarnir á Íslandi. Meðal þeirra voru Vélflugdeild Svifflugfélags Íslands, Flugskóli Akureyrar, Flugskólinn Cumulus og Flugskólinn Pegasus. Flugskóli Akureyrar var stofnaður 1945, af Gísla Ólafssyni og Árna Bjarnarsyni. Skólinn keypti í upphafi tvær de Havilland D.H.82C Tiger Moth flugvélar frá Kanada. Flugskólinn keypti alls 6 flugvélar á ferli sínum, en mest voru 5 í notkun á sama tíma. Þessi, fyrsti Flugskóli Akureyrar hætti rekstri árið 1948 vegna skorts á nemendum. Flugvélarnar voru allar seldar til flugskóla í Reykjavík. Nafnið Flugskóli Akureyrar var endurvakið fyrir nokkrum árum af félagi sem yfirtók flugkennslu á Akureyri sem áður var í höndum Flugfélags Norðurlands.

 


Hér hefur verið stiklað á stóru í flugsögu Íslands. Fjölmargir aðilar hafa lagt hönd á plóginn við að byggja upp flugstarfsemi í landinu. Í dag (árið 2007) eru starfandi tíu íslensk flugfélög; Bláfugl, City Star, Flugfélagið Atlanta, Flugfélagið Ernir, Flugfélag Íslands, Flugfélag Vestmannaeyja, Icelandair, Iceland Express, Jet X og Mýflug. Af öðrum eldri flugfélögum má nefna Air Arctic, Fragtflug, Iscargo, Flugfélagið Þór, Flugsýn, Vængir, Flugstöðin, Odin Air og Flugfélag Austurlands o.fl.