Fairey Battle

Fairey Battle P2330
No. 98 Squadron
Royal Air Force

 

Fairey Battle flugvélin var hönnuð og smíðuð á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina fyrir RAF, Breska flugherinn, og var hún fyrsta flugvélin í flugflota þeirra sem var nánast öll smíðuð úr málmi.

Við upphaf styrjaldarinnar var Fairey Battle send til orrustu í Frakklandi og reyndist þar aldeilis úrelt. Var það fyrst  og fremst vegna þess hve hægfleyg hún var og hve illa vopnum hún var búin. RAF tók hana úr fremstu víglínu og sendi flugsveitirnar sem eftir voru til Bretlands og síðan áfram til samveldislandanna, eins og Kanada og Ástralíu, þar sem Fairey Battle var helst notuð til að þjálfa flugmenn.

Ein flugsveit var send til Íslands. Í henni voru 18 Fairey Battle flugvélar og komu þær til landsins 27. ágúst 1940. Hlutverk flugsveitarinnar var að verjast flugvélum Þjóðverja sem gætu reynt að gera árásir á landið og sinna eftirliti. 

Hér á landi var flugvélin m.a. notuð til að leita að orrustuskipinu Bismark er það sigldi norður fyrir Ísland.  Þannig var flugmaðurinn Arthur Round í leitarflugi suður með allri suðurströndinni og austur fyrir land, allt norður í haf, dagana áður en hann fórst. 

Vélin ferst

Forsaga slyssins er að 13. maí 1941 fóru nokkrar Fairey Battle flugvélar frá Kaldaðarnesi við Selfoss í hópflugi til Akureyrar með General Curtis, sem var nýr fyrirmaður heraflans hér á landi. Eftir lendingu á Melgerðismelum í Eyjafirði var mannskapnum ekið til Akureyrar á opnum herjeppum. Á þeim tíma voru margar beygjur og þröngar brýr á þeirri leið og valt einn herbílanna með þeim afleiðingum að nokkrir af flugliðunum slösuðust en enginn þó alvarlega. Voru þeir sem meiddust fluttir um borð í spítalaskipið Leinster, sem þá lá í Akureyrarhöfn.

 

RAF Kaldaðarnes.
Stundum var erfitt að athafna sig í gljúpum jarðveginum á Kaldaðarnesi.
Fairey Battle.
Fairey Battle 98. flugsveitar kemur inn til lendingar á Kaldaðarnesi.


Battle flugsveitin.
Hópmynd af liðsmönnum 98. flugsveitar konunglega breska flughersins (R.A.F.) tekin eftir komuna til Kaldaðarness.




RAF Melgerðismelar.
Flugvöllurinn að Melgerðismelum í Eyjafirði.

Það var síðan 26. maí 1941 sem Arthur Round flugmaður fór á vélinni í þessa afdrifaríku ferð til að sækja félaga sína og koma þeim suður á Kaldaðarnes.

Round hóf sig á loft frá Kaldaðarnesi að morgni og flaug sem leið lá norður til Eyjafjarðar. Skyggni var slæmt en Round komst á leiðarenda með því að fljúga alveg niður við jörð niður í Eyjafjörð og lenda á Melgerðismelum um hádegisbil.

Með honum í þessari ferð var Reginald Hopkins. Þeir stoppuðu stutta stund án þess að drepa á mótornum, rétt til að tveir félagar þeirra, Keith Garret og Henry Talbot, kæmust um borð.

Flugvélin hóf sig á loft til norðurs og flaug út fjörðinn allt til Akureyrar þar sem hún tók til við að hringa sig upp í ský. Þetta er gert til að ná hæð á þekktum stað en þegar hæðinni er náð er kompásstefna notuð til að fljúga rétta leið til Kaldaðarness.

Aldrei verður hægt að segja til um það með vissu hver orsök flugslyssins var, en hægt er að geta í eyðurnar. Þannig sést t.d. á staðsetningu flaksins að vélin var á réttri flugstefnu, svo ólíklega var hann að villast en á brotlendingarstefnu flaksins sést að flugvélin hefur verið í nauðbeygju til hægri er hún skall í jörðina. Ekkert af því sem fundist hefur getur greint frá því hvað gerðist nánar.

 

Arthur Round.
Flying Officer
Arthur Round.
Reginald Hopkins.
Flight Sgt.
Reginald Hopkins.
Keith Garret.
Flight Sgt.

Keith Garret.

John Talbot.
Pilot Officer
Henry Talbot.

Árið 1980 fór Hörður Geirsson að leita að þessari týndu flugvél, sem enginn vissi á Íslandi að hefði fundist nokkrum dögum eftir slysið. Eftir samtöl við marga einstaklinga  sem voru kunnugir á svæðinu hóf Hörður fyrstu leit sína,sem stóð yfir í viku. Leitaði hann í dölunum á móts við Bakkasel í Öxnadal en fann ekkert. Aðalástæðan var sú, að hann fór of snemma sumars og að jöklar á Íslandi voru í sögulegu hámarki á þessum tíma. Hann fór fjölmargar ferðir á næstu árum en það var síðan árið 1999 þegar félagi Harðar, Friðþór Eydal, var að safna efni í stríðsárabók sína í Public Record Office í London, að kona Friðþórs, Hrefna Kristjánsdóttir, fann í skjalabunka skýrslu leitarflokksins er fann vélina í lok maí 1941. Þar með var komin staðsetning á flakinu og þá var bara að bíða haustsins, og fannst brotlendingarstaður vélarinnar 21. ágúst 1999. Þeir sem fundu vélina voru Arnar Össur Harðarson, Örn Arnarsson, Skúli Árnason og Hörður Geirsson.

Farnir hafa verið fjölmargir leiðangrar upp að flakinu til að hreinsa það sem jökullinn skilar á hverju ári. Þeirra stærstir eru leiðangrar í samvinnu Björgunarsveitarinnar Súlur og RAF Mountain Rescue Service sem farnir voru árin 2000, 2001 og 2004.

Aðstæður á staðnum eru þannig að ekki er hægt að koma neinum tækjum að, öðrum en þyrlum á haustin, og síðan vélsleðum og snjóbílum síðla vetrar, til þess að ná niður að flakinu.

Á því svæði sem brakið kemur upp er mikill vetrarsnjór allt árið um kring nema á heitustu haustum. Sem dæmi má nefna að jökullinn kom ekki í ljós árið 2005, svo engu varð bjargað það árið. Árin á undan hafði jökullinn hörfað um einn til tvo metra á ári.

Tilurð þessarar umfjöllunar og sérsýningar í Flugsafni Íslands er sú að flugvél af gerðinni Fairey Battle fórst á stíðsárunum í fjallgarðinum milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar og fannst um 60 árum síðar eftir mikla leit Harðar Geirssonar á Akureyri.

 

Fairey Battle-flugvélin P2330 og áhöfn var týnd og tröllum gefin í nærri sex áratugi. Það var aðeins vegna áhuga og þrautseigju Harðar Geirssonar að flakið fannst aftur eftir allan þennan tíma. Munir sem fundust við flak P2330 eru núna hluti af sýningu í Flugsafni Íslands sem heiðrar minningu flugliðanna fjögurra.

Hörður Geirsson.

 

Hópmyndir af leiðöngrum Björgunarsveitarinnar Súlur og RAF Mountain Rescue Service sem farnir voru að flaki Fairey Battle vélarinnar árin 2001, 2003 og 2004.